Chili-pipar frá fræi

Chili-pipar frá fræi

Að rækta chili frá fræi


Thai chili-pipar

Chili-pipar er mjög einföld planta til að rækta og því mælum við með að byrja þar ef maður hefur ekki ræktað neitt áður.
Ekki er nauðsynlegt að fjárfesta í dýrum búnaði til að rækta chili, heldur getur oft verið nóg að kaupa fræ, pott, mold og góða plöntunæringu. 

Sáning

Hægt er að sá fræjunum á nokkra vegu. Setja fræin á rakan eldhúspappír og setja annað lag af rökum eldhúspappír yfir. Þessari samloku er svo skellt inn í sjálflokaðan plastpoka og geymt á hlýjum stað. Eftir 2 - 7 daga ættu flestar chili tegundir að vera farnar að sýna einhver merki um spírun, en þó er það mjög breytilegt á milli yrkja. Þá er kominn tími til að gróðursetja fræin. Kosturinn við þessa aðferð er að sjá nákvæmlega hvaða fræ ætla að spíra og hver ekki. En það er hætt við að nýja rótin brotni við gróðursetninguna og því verður að fara mjög varlega.

Einnig er hægt er að dreifsá fræjunum í bakka eða pott, þá er þunnu moldarlagi af næringarsnauðri sáðmold komið fyrir í bakka eða potti. Gott er að bleyta vel í moldinni áður en fræjunum er dreift. Síðan að dreifa nokkuð jafnt úr fræjunum yfir moldina og að lokum að strá 5 mm lagi af mold yfir fræin. Þegar fræin hafa öll spírað og eru byrjuð að vaxa eru plönturnar varlega fluttar yfir í potta eða fjölhólfabakka til áframhaldandi ræktunar. Gott getur verið að setja plönturnar í 8-10 cm potta.

En það er líka hægt að sleppa þessum stigum og sá beint í 8-10 cm pott. En þá mæli ég með að setja nokkur fræ í hvern pott til að tryggja spírun. Þá er frekar hægt að velja fallegustu plöntuna og klippa hinar í burtu. Það er ekkert leiðinlegra heldur en að enda uppi með tóman pott eftir 1-2 vikur.

Hvaða mold?

Hægt er að sá beint í kókosmold, gæða pottamold eða vel niðurbrotna moltu. Einnig er hægt að sá í sáningarmold, en hún er algerlega næringarsnauð. Fljótlega eftir spírun þarf þó að gefa næringu til að plönturnar líði ekki skort. Því getur oft verið betra að hafa smá næringu til staðar í moldinni til að fyrirbyggja það vandamál. Hægt er að fá næringarsnauða kókosmold sem er fínt mulin og hentar mjög vel til sáningar.

Kókosmoldin er mjög loftmikil og þjappar ekki að rótunum. Hún brotnar mjög seint niður og heldur því byggingunni sinni ár eftir ár. Alla kókosmold er hægt að nota aftur og aftur, en þó er ekki ráðlagt að nota hana aftur ef upp hafa komið meindýra vandamál eða sveppasýkingar. Kókosmold heldur vel vatni en ef ofvökvað skolast næring auðveldlega úr rótarbeðinu, því er aldrei ráðlagt að vökva með hreinu vatni í kókosmold. Hægt er að fá bæði næringarbætta kókosmold og næringarsnauða. Búið er að sýrustilla alla kókosmold og hún kemur alltaf dauðhreinsuð og tilbúin til notkunar.

Pottamold er mjög næringarheldin og heldur vel vatni, en brotnar niður með tímanum og þjappast að rótunum. Pottamold er mjög misjöfn af gæðum. En gott er að hafa í huga að bygging hennar sé örlítið gróf, innihaldi eitthvað af lífrænum efnum til niðurbrots og gott að moldin sé létt í sér. Hægt er að fá pottamold sem er næringarblönduð eða næringarsnauð. Lang algengast er að fá innfluttann torfmosa (Sphagnum mosi) sem pottamold, gott er að lesa utan á pokana til að sjá hvernig byggingin á jarðveginum er. 

Molta er mjög næringarrík en oft getur verið erfitt að sá beint í moltu ef hún er ekki nægilega vel niðurbrotin, það þarf líka að varast að ekki sé verið að bera sjúkdóma eða meindýr á milli ef moltan er búin til úr því sem til fellur við aðra ræktun.

Hægt er að blanda kókos saman við pottamold eða moltu til að auka loftun og stöðugleika í jarðveginum, en einnig er hægt að blanda vikri eða perlusteinum út í moldina til að tryggja loftun á rótum.

Ljós eða ekki ljós?

Ef að ekki eru ræktunarljós til staðar á heimilinu, og það er ekki fyrirhugað að fjárfesta í neinum slíkum búnaði fyrir ræktunina, þarf að tímasetja sáninguna rétt til að sólin sé nægilega mikið á lofti til að plönturnar verði ekki alltof teygðar og slappar. Vorjafndægur eru 19-21 mars, sem þýðir að sólin er 12 tíma á lofti og nóttin einnig 12 tímar. Því er seinni hlutinn í mars sá tími sem hægt er að byrja að sá fyrir chili-piprum án lýsingar.

Best er að fjárfesta í lýsingarbúnaði sem er hannaður til ræktunar, velja þarf góðan stað þar sem hægt er að festa ljósið upp eða hafa það á standi. Gott er að hafa í huga að hægt sé að hækka og lækka ljósið því að chili-piprar geta orðið nokkuð stórir, en þó er það misjafnt eftir tegundum. Best er að hafa ljósið örlítið breiðara en plantan mun verða til að þekja toppinn á henni nokkuð vel. 

Það er líka hægt að setja upp minna ljós í gluggakistu til að styðja við plöntuna með því að lengja daginn og gefa auka kraft þegar lítil sól er úti. Gott er að velja glugga sem snýr í suður, en ef að eini glugginn í rýminu snýr í norður er nauðsynlegt að hafa ljós yfir til að chili plantan vaxi almennilega.

Hvaða hitastig?

Sáningarhitastig chili-pipra er nokkuð breytilegt eftir afbrigðum. En þó er þumalputtareglan að halda sáningarhitanum í kringum 23-30°C. Spírun er hraðari við hærri hita. En þó þarf að vara sig ef hitinn er kominn upp í 35°C er hætt við að það hægi snögglega aftur á spírun og jafnvel hægt að drepa fræ við hærri hita en það.

Ef að hitastigið í rýminu sem þið ætlið að forrækta í er mjög breytilegt er hægt að fá hituð gróðurhús eða hitamottur sem hægt er að setja undir pottana til að hjálpa til við að halda hitanum í pottunum. 

Passa þarf upp á að rakinn haldist vel að fræjunum á meðan þau eru að spíra. Best er að hafa pottana í litlum gróðurhúsum sem loka rakann inni eða að plasta yfirborð pottanna þannig að rakinn gufi ekki upp. Hægt er að nota til þess heimilisfilmu, frauðplastplötur eða hvítt/svart plast sem lagt er yfir. 

Skref fyrir skref

Til að fara í gegnum þetta skref fyrir skref sáði ég chili-piprum í kókosmold undir flúorljósi.

 

Sáning - 06.02.2017

Fræin fékk ég úr gömlum thai chili-pipar sem var búinn að fá að þorna í nokkurn tíma. En fræin samt enn í góðu lagi.

Dreifsáð í 10 cm pott sem ég fyllti með kókosmold. Ég bleytti vel í pottinum svo að kókosmoldin væri gegnblaut. Ég rótaði moldinni aðeins til og dreifði úr nokkrum fræjum. Síðan setti ég moldina ofan á fræin og þjappaði létt að.

Pottinum svo komið fyrir í litlu gróðurhúsi sem er með smá vatni í botninum til að halda rakanum uppi. Gróðurhúsið setti ég á ganginn hjá mér þar sem hitinn helst nokkuð jafn 22-23°C. Spírun ætti að taka um viku. Þó er spírunartími mjög breytilegur eftir tegundum. Lykillinn í þessu er að vera þolinmóður og passa vel upp á hitann og rakann. Ekki láta þorna í pottinum og passa að hitastigið fari ekki undir 21°C og ekki yfir 35°C. Fyrir utan það snýst þetta núna bara um að bíða. 

 

Ég notaði þó ekki nema helminginn af fræjunum. Restina setti ég í lokaðan plastpoka til að geyma til næstu sáningar. Markmiðið er að vera með 3-4 flottar chili plöntur. Þar sem ég er bara með eitt ljós í þessari sýnikennslu ætla ég að takmarka mig við þann fjölda. Það er ekki gott að halda öllum plöntunum sem spíra ef maður hefur ekki pláss eða tíma til að sinna þeim. Lykillinn að árangri er að hafa gaman af þessu og að verkið sé viðráðanlegt.

09.02.2017

Fræin eru í góðu og röku sánabaði inni í litla gróðurhúsinu. Kókosmoldin er vel rök og umhverfisrakinn inni í húsinu +/- 90%.Hitinn er búinn að haldast á bilinu 25-26°C síðustu 3 daga. Það eru rákir í bakkanum á gróðurhúsinu sem er hægt að setja smá vatn í til að halda rakastiginu uppi og gott að passa að loftopið efst á húsinu sé lokað til að rakinn og hitinn haldist inni.

Ekki er nauðsynlegt að hafa ljós yfir húsinu og stundum er jafnvel nauðsynlegt að myrkva fræin alveg til að þau spíri. Nú fer að styttast í að fræin komi upp.

 

12.02.2017

  

Fyrsti chili-piparinn var að gægjast upp 6 dögum eftir sáningu.

Nú er ég búinn að taka pottinn út úr gróðurhúsinu og lækka ljósið niður í 10 cm fjarlægð frá plöntunni. Nú er lang mikilvægast fyrir fræplönturnar að fá nægilega mikið ljós til að stilkarnir verði sverir og stinnir.

Flúorljós gefa mestan kraft frá sér í 5-10 cm fjarlægð frá toppi plöntu. Þó þarf að fylgjast vel með hita og rakastiginu fyrstu dagana sem plantan er að gægjast upp úr moldinni. Hætt er við að yfirborðið þorni í hitanum sem ljósið gefur frá sér og því gæti þurft að úða yfirborðið reglulega. Potturinn er vel rakur eins og er og því ekki nauðsynlegt að grípa inn í.

Hægt er að hafa plönturnar lengur inni í gróðurhúsinu með því að opna loftrákirnar á toppinum. En þar sem hitinn í húsinu var í hærra lagi tók ég pottinn út úr því til að ná hitanum aðeins niður og til að gefa fræjunum meira ljós.

Hitinn á ganginum hjá mér er að haldast í um 22-25° og því passlegur hiti fyrir chili-pipra. Þegar plönturnar verða allar komnar upp mun ég umpotta þeim í sína eigin potta. En best er að gera það um leið og plantan er uppreist með fyrstu tvö kímblöðin sjáanleg og áður en að rótin er farin að teygja sig of langt niður.

14.02.2017


25 hamingjusamar Thai chili-pipar fræplöntur

Nú eru öll fræin búin að spíra og komin upp. Af þeim 25 fræjum sem ég setti niður, fékk ég 25 fræplöntur upp. Sem verður að teljast mjög gott miðað við 5 ára gamlan chili sem hafði fengið að þorna alveg.

Stuttu eftir að fyrstu blöðin (kímblöðin) eru komin upp er lang besti tíminn til að dreifplanta (prikla). Þá er rótin ekki komin langt niður og ekki farin að greina sig mikið til hliðanna og því minnsta sjokkið fyrir plöntuna.

Næst er að ákveða fjölda af plöntum sem þið ætlið að nýta og undirbúa potta með jarðvegi. Mikilvægt er að bleyta vel í ræktunarefninu áður en þið dreifplantið og passa vel upp á hreinlæti. Best er að nota nýja mold, hrein áhöld og nýja eða vel þvegna potta. Einnig ætti að þvo aðstöðu vel áður ef hún hefur verið notuð til að sinna öðrum plöntum til að fyrirbyggja smit á meindýrum eða sveppum á milli ræktana. Ef þið hafið verið að meðhöndla aðrar plöntur ættuð þið að þvo ykkur vel um hendur áður en þið hefjist handa við dreifplöntunina.

Dreifplöntun fer þannig fram að pinna er stungið niður í moldina, soldið fyrir utan plönturnar og lyft er varlega undir þær til að losa moldina í kringum rótarhálsinn. (Í þessari sýnikennslu er ég að nota hvítan penna til að hann sjáist betur á myndunum). Á meðan er best að halda í kímblöðin en ekki um rótarhálsinn. Því ef rótarhálsinn merst eða kremst þá deyr plantan. En ef þið slítið smá bút af laufinu á plantan möguleika að ljóstillífa með hinu blaðinu og þá er líka stutt í næstu lauf (fyrstu varanlegu blöðin).

Þegar þið hafið losað plöntuna og lyft henni varlega upp úr moldinni er gott að gera gat í moldina á pottinum sem þið ætlið að setja plöntuna í með pinnanum.

 

Setjið svo plöntuna varlega ofan í gatið og þjappið varlega að plöntunni. Síðan er bara að endurtaka ferilinn þangað til að búið er að fylla í alla pottana (Ekki er æskilegt að gróðursetja plöntuna dýpra eða ofar en hún stóð áður, reynið að gróðursetja plöntuna í sömu dýpt og hún stóð fyrir dreifplöntun).

Gott er að úða yfir plönturnar með fínum úða og koma þeim fyrir undir ljósinu. Mikilvægt er að halda háu rakastigi (90% +) fyrstu dagana eftir priklun því að rótin þarf smá tíma til að ná sér eftir sjokkið. Við of lágan raka slappast plönturnar og hengja haus. Ef rakastigið er lágt í rýminu sem plönturnar eru í (sem er oftast raunin í heimahúsum) þá er hægt að setja plastfilmu eða glært plast yfir pottana, það væri líka hægt að koma þeim fyrir inni í gróðurhúsi ef þið hafið pláss. Passið bara að plastið liggi ekki ofan á plöntunum þannig að þær nái að vaxa.

20.02.2017


Undirvökvun á chili-pipar 

Nú eru liðnir 14 dagar frá því að chili fræin fóru niður í mold og 6 dagar síðan þeim var dreifplantað. Á þeim 6 dögum eru fyrstu tvö varanlegu laufblöðin farin að springa út og pottarnir farnir að léttast. Þá er kominn tími til að vökva í fyrsta sinn.

Þegar ræturnar eru ekki búnar að dreifa úr sér um allann pottinn getur verið varasamt að yfirvökva. Þá hreyfist moldin mikið og getur skekkt plöntuna í pottinum eða valdið óþarfa þjöppun. Því er ráðlagt að undirvökva plöntur fyrstu vikurnar. Undirvökvun er oft ráðleg líka ef mikið er um flugur í pottunum. Þá helst yfirborðið mun þurrara og þá ná flugurnar ekki að verpa jafn auðveldlega í moldina.

Undirvökvun er hægt að framkvæma á marga vegu. Finnið djúpa skál eða fötu og eftir stærð pottsins fyllið þannig að 3/4 hluti pottsins sé á kafi í vatni. Þá drekkur moldin upp í gegnum götin á pottinum og verður rök án þess að þjappast mikið. Hægt er að sjá þegar potturinn er orðinn vel blautur á því að yfirborð moldarinnar verður dökkt á litinn og glansandi.

Undirvökvun er mikið notuð í garðyrkjustöðvum á svokölluðum "Flóð og fjöru" borðum. Þar sem 10-15 cm djúp borð fyllast upp af næringarríku vatni og plönturnar drekka upp í gegnum götin á pottunum eða í upp í gegnum ræktunarefnið. Hægt er að glöggva sig betur á þessu með því að horfa á þetta myndband.

https://www.youtube.com/watch?v=60uokf3WmTo

Þar sem kókosmold inniheldur grunn næringarforða er nóg að blanda veika næringarlausn í vatnið. Í þessa sýnikennslu ætla ég að nota "Flora Series" frá GHE. En það er næringarsería í þremur brúsum sem gefur þér sveigjanleika í blöndun, allt frá fræi og að blómstrun. Ég læt næringartöfluna fyrir kókos og vatnsrækt fylgja með.

Eins og sést á næringartöflunni er blandan fyrir ungar fræplöntur 2,5 ml af hverjum brúsa fyrir sig (Gro, Micro og Bloom) í hverja 10 lítra af vatni. En þar sem ég var bara að vökva nokkra potta blandaði ég 2 lítra af næringarlausn. Sem gerir þá 0,5 ml af hverjum brúsa í 2 lítra af vatni. Á næringartöflunni er líka hægt að gefa viðbótarefni til að styrkja plönturnar. Af þeim notaði ég líka Diamond nectar sem er fljótandi fulvic sýra (auðleysanleg húmus sýra) sem styrkir ræturnar og hjálpar til við upptöku á næringarefnunum. Nokkurs konar plöntu sterar.

Fyrir þá sem hafa aðgang að pH mæli eða pH mælisetti er gott að fylgjast með sýrustiginu á vatninu. Kranavatn á höfuðborgarsvæðinu og mörgum stöðum á Íslandi er mjög basískt og því getur það haft áhrif á upptöku á næringarefnum ef það er gefið án þess að jafna sýrustigið. Í Flora series næringunni er sýrustigsjafnari sem lækkar sýrustigið á vatninu. En þrátt fyrir það er gott að fylgjast reglulega með stöðunni á vatninu, og mun betra að fyrirbyggja vandamál heldur en þurfa að bregðast við þeim þegar plönturnar sýna skort.

Chili-pipar vill sýrustig í kringum 6,0 pH og gott að það sé ekki að fara niður fyrir 5,5 pH eða upp fyrir 6,5 pH.

24.02.2017

Dagur 18 -  Þótt veðrið úti sé drungalegt eru chili-piprarnir að dafna vel undir flúorljósinu.


28.02.2017

Þessar tvær plöntur eru úr sömu sáningunni og því nákvæmlega jafn gamlar (21 dagur frá sáningu). Þeim var dreifplantað á sama tíma en þó er töluverður stærðar munur á þeim. Plantan vinstra megin er búin að vera undir flúorljósi frá sáningu, en plantan hægra megin var sett út í glugga eftir dreifplöntun.

Fyrstu vikurnar í uppvexti eru þær mikilvægustu. Þá byggir plantan upp sterkan stöngul, öflugt rótarkerfi og ákvarðar fjölda blaða og þéttleika. Veikur og teygður stöngull getur bæði orðið til þess að plantan eigi erfitt með að standa án stuðnings seinna á lífsleiðinni og getur einnig orðið til þess að sjúkdómar eigi greiðari leið inn í plöntuna sem draga hana til dauða langt fyrir tímann.

Ef ekki er nægilega mikið ljós úti til að fá þéttann og góðan vöxt í upphafi getur verið að betra bíða eftir að sólin hækki á lofti. Þá fá plönturnar meira ljós á skemmri tíma og vöxturinn verður eðlilegri og heilbrigðari. Betra að fyrirbyggja vandamálin en þurfa að bregðast við þeim.

Ef ekki er möguleiki á að bíða eftir sólinni er lang best að fá sér gott ræktunarljós sem gefur plöntunni birtu af réttum styrkleika og lit.


01.03.2017

Dagur 23 - Bráðum fara laufin á chili-piprunum að snertast og þegar það gerist er kominn tími á að gefa þeim meira pláss. En þar sem ég ætla að fá þéttari plöntur til að nýta plássið sem best ætla ég að toppa nokkrar þegar 3. blaðparið er fullvaxið. Sem ætti að vera eftir nokkra daga. Ekki er ráðlegt að toppa plöntur fyrr en við þriðja blaðpar.

Ég tek þó fram að chili-piprar sem fá nægilega birtu og gott pláss munu greina sig á endanum og því er ekki nauðsynlegt að beita toppun. En ef þið viljið auka greinamyndun eða fjölda toppa er hægt að prufa sig áfram í toppun og klippingum.

Toppun er framkvæmd þannig að efsti hluti stöngulsins, rétt fyrir ofan þann hluta sem þið veljið að halda, er klipinn í burtu. Best er að gera það um leið og hægt er. Þá er stöngullinn mjúkur og lítil orka hjá plöntunni búin að fara í að mynda stór laufblöð. Við klípingu/toppun fer plantan í að mynda tvo toppa, en það eykur líka á sprotamyndun í öllum blaðöxlum fyrir neðan þann stað sem klipið var. Ég mun birta myndir af ferlinu fyrir þá sem hafa áhuga á að læra meira um toppun.

Hægt er að endurtaka þetta til að stýra vexti plöntunnar, bæði með toppun eða klippingu. En þó ætti að varast að ganga of nærri plöntunni og ekki fjarlægja of mörg blöð í einu. Allavega ekki á meðan hún er svona ung.


08.03.2017

 

Dagur 31 - Nú er mánuður liðinn frá sáningu og 24 dagar frá dreifplöntun. Þá er kominn tími á að umpotta plöntunum í stærri pott. Plönturnar eru núna í 9-10 cm pottum og gott er að tvöfalda pottastærðina til að ræturnar hafi nægt rótarrými til að stækka í. Ég ætla að setja þær í 19 cm pott, en hver 19 cm pottur tekur 3 lítra af mold. Hægt er að nota 18-22 cm potta, eftir hvað þið komist í. Mikilvægt er að muna að bleyta vel upp í moldinni áður en þið setjið plöntuna í nýja pottinn.

Til að sýna mikilvægi gróðurlýsingar og þess að plönturnar fái góða byrjun þá tók ég plönturnar upp úr pottunum. Þannig má sjá muninn á rótunum á plöntunum sem voru undir ljósinu og þeim sem voru úti í glugga. Plönturnar undir ljósinu eru komnar með þykka stöngla og vel greinótt og fagurhvítt rótarkerfi, en plönturnar sem fóru út í glugga strax eftir dreifplöntun eru rétt komnar með rótina niður í gegnum pottinn.

Plönturnar sem eru búnar að vera undir ljósinu eru í mun betra standi til að fara út í glugga heldur en þær voru strax eftir dreifplöntun. Það hægir auðvitað alltaf á vextinum þegar þær fara út í glugga miðað við plönturnar sem verða áfram undir lýsingu. En þar sem stöngullinn og ræturnar eru sterkar þá ná plönturnar sér aftur og verða farnar að gefa chili-pipra fyrir sumarið.

Vökvun:

Ég hef verið að vöka plönturnar á 3-4 daga fresti, en það fer þó mjög mikið eftir húsnæðinu og lýsingu hversu oft þarf að vökva. Í upphafi var blandan 2,5 ml. af hverjum brúsa fyrir sig í 10 lítra af vatni (Gro, Bloom og Micro). En ég hef verið að styrkja blönduna yfir í 7 ml. af hverjum brúsa í 10 lítra af vatni. En þar sem plönturnar eru komnar í mikinn vöxt er kominn tími á að breyta hlutföllunum. Eins og sést á næringarspjaldinu frá "GHE - Flora Series" - er næsta blanda 15 ml. af Flora Gro, 10 ml. af Flora Micro og 5 ml. af Flora Bloom í hverja 10 lítra af vatni. Þessum hlutföllum ætlum við að halda þar til fyrsta blóm fer að láta sjá sig. Þá er kominn tími á að snúa hlutföllunum við. 5 ml. af Flora Gro, 10 ml. af Flora Micro og 15 ml. af Flora Bloom. Ég hef einnig verið að gefa 20 ml af Diamond Nectar í hverja 10 lítra af vatni. En það gef ég til að styrkja rætur og bæta upptöku á næringarefnum.

Þessi hlutföll eru auðvitað gefin til viðmiðunar og með aukinni færni og reynslu er hægt að prufa sig áfram með aðrar blöndur.

Sýrustigið er sem fyrr í kringum 6,0 pH, æskilegt að það sé ekki að fara undir 5,5 og ekki yfir 6,5. En þó ættuð þið að lesa ykkur vel til um það yrki af chili-piprum sem þið ætlið að rækta. Það er alltaf undantekningin sem sannar regluna í þessu og ekkert yrki er alveg eins.


13.03.2017

 

Umpottun - Þar sem ræturnar eru búnar að fylla út í ræktunarefnið og farnar að hringa sig í pottinum er kominn tími á umpottun. Ég ætla að færa þær úr 10 cm pottinum sínum yfir í 19 cm pott (3 lítra). Best er að leyfa moldinni að þorna áður en þið umpottið, þá eru ræturnar fljótari að sækja yfir í rakari moldina og auðveldara að meðhöndla plöntuna þegar þið eruð að umpotta.

Ég byrja á því að fylla pottana (sem ég ætla að umpotta í) af mold og bleyta ræktunarefnið vel. Gott er að leyfa moldinni að jafna sig eftir að hún er bleytt. Þannig að rakinn jafnist um allann pottinn og auka vatnið sem moldin nær ekki að halda leki frá. Ekki er þörf á að toppfylla pottana, setjið mold upp að næst efstu brún á pottinum. Þar sem kókosmoldin frá Atami inniheldur næringu er ég bara að bleyta upp í moldinni með hreinu vatni.

Búið til gat í moldina á stærri pottinum sem er nægilega stórt fyrir plöntuna. Svo þarf að losa plöntuna úr 10 cm pottinum. Gott er að þrýsta létt á allar hliðar til að ræturnar losni frá hliðunum. Snúið pottinum á hvolf og haldið um stöngulinn. Þrýstið svo á botninn þannig að plantan losni úr pottinum. Passið bara að toga ekki of fast, annars er hætt á að þið slítið rætur og losið plöntuna í moldinni.

Setjið plöntuna í gatið sem þið bjugguð til og þjappið moldinni að plöntunni. Bætið við mold ef ykkur finnst yfirborðið hafa þjappast of mikið. Passið þó að plantan sitji ekki dýpra í moldinni en hún gerði í hinum pottinum. Ef að plantan situr dýpra og er með mold langt upp á stöngul er hætt á að hann verði of blautur og sveppir eða aðrir sjúkdómar eigi greiða leið inni í plöntuna. Eitthvað sem er betra að fyrirbyggja.

Að umpottun lokinni er ekkert annað að gera en að setja plönturnar undir ljósið eða út í glugga í sólina. Enda orðið mun bjartara á þessum árstíma heldur en var þegar plöntunum var sáð.

21.03.2017

 

Nú er liðin vika frá umpottun á chili-piprunum og þær komnar undir sterkara ljós. Plönturnar hafa heldur betur tekið við sér eftir að þær komust í 3 lítra pott. Rótin er komin niður í gegnum pottinn og fyrstu blómin eru alveg að fara að springa út.

Ég flutti plönturnar undir 300 Watta CFL (Flúorbúnt peru) í 6400°K (Blátt ljós). Þannig get ég lýst upp stærra svæði en með hinu ljósinu og ljósið nær dýpra í gegnum laufþykknið til að ekki myndist of mikill skuggi hjá neðstu blöðunum.

Ég vökvaði í dag í fyrsta sinn frá umpottun. Ég hélt sömu blöndu af "Flora Series" og ég notaði síðast - 15 ml Gro, 10 ml Micro og 5 ml Bloom í 10 lítra af vatni. Nú fer að koma tíma til að breyta næringargjöfinni yfir í blómgunarblöndu þar sem það eru bara nokkrir dagar í að blómin springi út.

Fyrir þau ykkar sem finnst of flókið að nota 3 brúsa og vilja bara hafa þetta einfalt þá mæli ég með "Flora Nova" næringunni. Þar bara einn brúsi sem er notaðir eftir hvort þú sért með plöntu í grænvexti (Salat, kryddjurtir eða plöntur sem eru ekki farnar að blómstra) eða hvort þú sért með blómstrandi plöntu. Flora Nova næringin hentar í flest allar jarðvegsgerðir - kókos, mold og nokkrar gerðir af vatnsrækt.

Ef þið eruð að rækta í venjulegri mold eða pottamold þá getið þið notað "Terra Leaves" fyrir plöntur sem eru grænar og "Terra Max" fyrir plöntur sem eru blómstrandi. Einn brúsi, þú eykur bara magnið af næringu í hverri blöndu eftir því sem þær stækka.

24.03.2017

Til að fylgja eftir fyrri samaburðar myndum.
Þessar plöntur eru allar jafn gamlar. Sáð 6. Febrúar.

Plantan lengst til hægri er sú sem er búin að vera út í glugga frá dreifplöntun.

Plantan í miðjunni var undir ljósinu fyrsta mánuðinn og fór svo út í glugga og er búin að vera þar síðustu 2 vikur.

Plantan lengst til vinstri er búin að vera undir ljósi frá sáningu. Fór undir 300W CFL peru fyrir 2 vikum, og fór í stærri pott.

Dæmi hver fyrir sig!

04.04.2017

Nú eru liðnir 2 mánuðir frá sáningu og fyrsta blómið sprakk út fyrir nokkrum dögum síðan. Ég er búinn að vera að frjóvga blómin með því að bursta létt yfir blómin með mjúkum pennsli. Með því að hrista plöntuna eða hreyfa létt við blóminu með pennsli eða fingri losnar frjóduftið sem svo frjóvgar blómið. Chili-piprar eru mjög misjafnir með hvernig blómið breytist, sum blóm fara að slúta niður á meðan önnur reisa sig upp. Stuttu eftir að krónublöðin sölna fer að rísa lítill grænn pipar upp úr miðjunni.

Í næringargjöfinni er ég að halda mig við 15ml af Flora Bloom, 10 ml af Flora Micro og 5 ml af Flora Gro í hverja 10 lítra af vatni. Ef einhver laufblöð fara að sölna er það ekkert til að hafa áhyggjur af. Plantan er að draga til sín alla þá orku sem hún má missa til að búa til blóm og aldin og því er varasamt að gefa chili-piprum of mikla næringu. Þá er hætt við að þeir vilji ekki framleiða blóm og einbeiti sér að því að búa til laufblöð.

 

Nú þegar við erum farin að sjá fyrsta aldin er varasamt að láta plöntuna þorna of mikið. Þá gæti plantan ákveðið að kasta af sér blómum eða aldinum til að lifa af. Því ætti að passa að halda rótunum rökum, en ekki blautum.

Það er að koma tími á að umpotta aftur í næstu stærð fyrir ofan. Ég ætla að fara með plönturnar í 11 lítra pott. Bæði til að þurfa ekki að vökva jafn oft og til að gefa rótunum og plöntunni nægilegt rými til að stækka. Munið bara að það er jafnvægi í því hversu stór plantan er ofan moldar og hversu stórt rótarkerfið þarf að vera til að taka upp næringu fyrir öll blöðin.

Ég get ekki bætt miklu við þessa sýnikennslu í bili þar sem litlar breytingar verða á plöntunni úr þessu. Plantan ykkar mun halda áfram að stækka og framleiða blóm, og mikilvægt er að halda jafnvægi á vökvun og frjóvgun blómanna til að fá sem mest af chili-piprum