Hvernig á að stilla sýrustig?

Að stilla sýrustig

Eftir að búið er að finna stöðuna á sýrustiginu þarf að meta hvort þurfi að lækka eða að hækka það.

Til þess að lækka sýrustigið bætum við sýru (pH Down) í vatnið en basa (pH Up) til að hækka sýrustigið. Hægt er að fá pH Down bæði í duft og vökvaformi.

Flestar plöntur vilja pH á milli 5,5 – 6,5. Sem dæmi er hreint vatn á höfuðborgarsvæðinu oft með frekar hátt pH (8,5 – 9,5). Þegar búið er að blanda næringu út í vatnið lækkar sýrustigið oftast töluvert niður. Eftir því hvaða plöntu er verið að rækta þarf að meta hvert hennar óska sýrustig er.

 

Setjið næringarefnin út í vatnið áður en þið mælið eða sýrustillið. Næringin lækkar vanalega pH gildi vatnsins vegna samsetningar frumefnanna í næringunni. Eftir að búið er að bæta næringunni út í og blanda vel, mælið þá hver staðan er annað hvort með stafræna mælinum eða fljótandi mælisettinu. Ef pH gildið er ekki eins og það á að vera, ætti að nota viðeigandi stillivökva til að rétta pH gildið af. Notið lítið af vökvunum í einu á meðan þið eruð að læra inn á hversu mikið þið þurfið.

Sýrustigið í næringarlausninni hefur tilhneigingu til að breytast með tímanum þar sem plöntur nota næringarefnin. Þar af leiðandi ætti að mæla sýrustigið reglulega og stilla eftir þörfum. Til að byrja með ætti að mæla sýrustigið daglega. Sýrustigið getur breyst vegna fjölda þátta. Hvaða ræktunarefni er verið að nota, hvernig plöntur er verið að rækta, aldur þeirra og margt fleira.

Hér má lesa ítarlegar um sýrustig

Hér má lesa um hvernig þú mælir sýrustig