pH gildi (Sýrustig)

Hvað er sýrustig?

Aðgengi plantna að næringarefnum í jarðvegi og vatnsræktun veltur á sýrustigi. Ef sýrustig er of hátt eða of lágt í jarðvegi þá bindast næringarefnin of fast við jarðvegsagnirnar. Í vatnsræktun verða nauðsynleg næringarefni óaðgengileg og plöntur líða því skort. Aðalnæringarefnin eru aðgengileg á bilinu pH 5,5-7,0 en snefilefnin eru aðgengileg við pH 5,0-6,0.

Til þess að lækka sýrustigið bætum við sýru (pH Down) í vatnið en basa (pH Up) til að hækka sýrustigið. Hægt er að fá pH Down bæði í duft og vökvaformi. Það kemur í 2 styrkleikum í vökvaformi, 25% og 81%. Ef blanda á meira en nokkur hundruð lítra af næringarlausn í einu þá er fljótlegra að sýrustilla með hærri styrkleika af pH Down.

Hvernig á að mæla sýrustig

Það er einfalt að mæla og stilla sýrustig í vatnsrækt, en örlítið flóknara þegar ræktað er á lífrænan máta eða í jarðvegi. Fljótandi pH mælisett og stafrænir mælar eru notaðir til að skoða stöðuna á sýrustigi í vatni.

  

Fljótandi mælisett eru mjög örugg og nákvæm leið til að sjá stöðuna á sýrustigi vatnsins í litakóða.

  

Tekin er lítil prufa af vatninu sem á að mæla og tveimur dropum af prufuvökvanum bætt út í. Setjið tappann á prufu glasið og hristið smá. Þá er hægt að lesa úr litakóðanum hver staðan er á sýrustiginu í næringarlausninni.

 

Nákvæmasta leiðin til að mæla sýrustig er með stafrænum mælum. Þá sýnir mælirinn þér pH gildi með einum til tveimur aukastöfum. Þeir eru einfaldir í notkun og auðvelt að stilla þá. Mælinum er stungið ofan í næringarlausnina sem á að mæla og stuttu seinna birtast upplýsingar á LCD skjánum.

Nauðsynlegt er að fara vel með stafræna mæla og ekki ætti að hræra í næringarlausninni með þeim til að tryggja að ekki komist vatn inn í hann. Á flestum mælum þarf að passa að neminn þorni aldrei og að glerskynjarinn sé hreinn. Passa þarf að stilla mælinn reglulega til að tryggja réttar mælingar.

Eins og með öll raftæki þá geta pH mælarnir gefið sig eftir einhvern tíma og þá er alltaf gott að eiga fljótandi pH mælisett til vonar og vara. Einnig er gott að nota fljótandi pH mælisettið til að skoða stöðuna á stafræna mælinum og hvort að hann hafi nokkuð afstillst.

Að stilla sýrustig

Eftir að búið er að finna stöðuna á sýrustiginu þarf að meta hvort þurfi að lækka eða að hækka það.
Flestar plöntur vilja pH á milli 5,5 – 6,5. Sem dæmi er hreint vatn á höfuðborgarsvæðinu oft með frekar hátt pH (8,5 – 9,5). Þegar búið er að blanda næringu út í vatnið lækkar sýrustigið oftast töluvert niður. Eftir því hvaða plöntu er verið að rækta þarf að meta hvert hennar óska sýrustig er.

 

Setjið næringarefnin út í vatnið áður en þið mælið eða sýrustillið. Næringin lækkar vanalega pH gildi vatnsins vegna samsetningar frumefnanna í næringunni. Eftir að búið er að bæta næringunni út í og blanda vel , mælið þá hver staðan er annað hvort með stafræna mælinum eða fljótandi mælisettinu. Ef pH gildið er ekki eins og það á að vera, ætti að nota viðeigandi stillivökva til að rétta pH gildið af. Notið lítið af vökvunum í einu á meðan þið eruð að læra inn á hversu mikið þið þurfið.

Sýrustigið í næringarlausninni hefur tilhneigingu til að breytast með tímanum þar sem plöntur nota næringarefnin. Þar af leiðandi ætti að mæla sýrustigið reglulega og stilla eftir þörfum. Til að byrja með ætti að mæla sýrustigið daglega. Sýrustigið getur breyst vegna fjölda þátta. Hvaða ræktunarefni er verið að nota, hvernig plöntur er verið að rækta og aldur þeirra og margt fleira.

 

Hvað er sýrustig – pH. (Ítarleg skýring)

Sýrustig er mælt í einingunni pH sem segir til um styrk H+ í vatni eða jarðvegslausn.
pH 1 samsvarar því að 1/10 g af 1 ltr vatns sé vetnisjónir.
Við pH 7 er hlutur vetnisjóna 1/10.000.000 g af 1 ltr vatns.
Fjöldi núlla segir til um pH gildið, því fleiri H+ því súrari er lausnin og pH gildið lægra.

pH gildið er súrt ef það er á milli 0 – 6,99
pH gildið er basískt ef það er á milli 7,01 – 14
7,0 pH er hlutlaust.