Tómatar frá fræi, vatnsrækt

Tómatar í vatnsrækt, skref fyrir skref.
 
Næsta sýnikennsla hjá okkur er hvernig maður ræktar tómata í vatnsrækt. Þeim verða þá ræktaðir í steinull og leirkúlum, vökvaðir í hringrásarkerfi frá Atami og fá Flora series næringuna. Yfir kerfinu hangir svo 300W Flúorbúnt (CFL) pera.
 
 
 
Áður en hægt er að sá í steinull, þarf að bleyta vel í henni. Hægt er að setja hana undir góða bunu af vatni í smá tíma, eða láta liggja í bleyti í nokkrar mínútur.
Tómatarnir sem ég ætla að sá heitir "Heartbreakers" og er runnatómatur sem verður um 40-50 cm á hæð, við bestu skilyrði. Fræin fást hér í versluninni hjá okkur.
http://bit.ly/hjartatómatur
 
  
 
Ef að steinullinn er ekki með tilbúnu gati, er best að byrja á því að búa til 1 gat í hvern kubb. Í það gat á svo að setja 1 fræ. Betra er að vera með fleiri kubba og 1 fræ í hverjum heldur en að setja nokkur fræ í hvern kubb. Eftir að búið er að setja fræin í götin er gott að þjappa létt á fræin þannig að þau nái örugglega snertingu við vatnið í steinullinni.
 
 
Þar sem tómatar vilja spíra í myrkri er best að breiða yfir steinullina með efni sem skín ekki í gegnum. Sem dæmi væri hægt að nota plast sem er svart öðrum megin og hvítt hinum megin. Þá er hvíta hliðin látin snúa upp til að endurkasta öllu ljósi. Fræin eru svo sett annað hvort inn í lítið gróðurhús til að halda raka að fræjunum, plastfilma sett utan um þetta allt eða glerplata lögð ofan í ullina.
 
Tómatar vilja góðan hita í spírun, 21-27°C. Því ætti að geyma steinullina á hlýjum stað. Spírun tekur yfirleitt um 5-7 daga við góðar aðstæður. En þó ætti ekki að örvænta ef það tekur aðeins lengur. Við sáðum þessum fræjum 21. Apríl.
 
 
09.05.2017
 

Nú eru 'Heartbreakers´ tómatarnir búnir að spíra og byrjaðir að stækka. Þetta er þó í annað skipti sem ég er að sá þessum tómötum fyrir sýnikennsluna. Fyrsta sáning misheppnaðist, fræin þornuðu of mikið rétt um það leiti þegar þau voru að koma upp. Það er mjög mikilvægt að læra inn á þær aðstæður sem hver og einn er með. Stundum misheppnast eitthvað í ræktuninni og þá þarf að greina hvað fór úrskeiðis, bregðast við og byrja aftur.

Til að fyrirbyggja að fræin myndu þorna í seinni sáningunni, þá lagði ég steinullina í 2 tíma í bleyti til að allir kubbarnir væru orðnir blautir í gegn. Sáði fræjunum í götin og plastaði svo steinullina inn í plastfilmu. Kubbarnir voru svo settir inn í lítið gróðurhús eins og áður og svart/hvítt plast lagt yfir til að myrkva fræin. Plastið var svo tekið af 4 dögum síðar og þá höfðu öll fræin spírað, en voru bara rétt byrjuð að kíkja út. Því fengu kubbarnir að vera plastaðir lengur til að tryggja að fyrri mistök myndu ekki endurtaka sig.

Nú þegar búið er að taka ofan af tómötunum þarf að passa upp á að þeir þorni ekki of hratt áður en rótin nær að anna upptöku á vatni. Hægt er að byrja að gefa væga næringarblöndu á tómatana um þetta leiti, en þó er nægur forði í fræinu til að mynda 2 fyrstu varanlegu laufblöðin.
Tómatarnir eru aðeins teygðari en þeir eiga að vera, það skýrist fyrst og fremst af of litlu ljósi í 2 daga á meðan þeir voru að kíkja upp úr steinullinni.

Nú er bara að fylgjast með þeim og passa rakann, bæði í lofti og í steinullinni.

 

17.05.2017

Tómatplönturnar farnar að rjúka upp. Þeim verður umpottað yfir í stærri kubb á morgun. Þá fara þær í 10x10 cm steinullarkubb.

 

24.05.2017


Svona líta ræturnar út fyrir umpottun. Hvítar og fallegar og komnar vel niður. 19.05.2017

Nú þegar tómatarnir okkar eru búnir að fylla vel út í litlu steinullartappana, er kominn tími á að umpotta þeim yfir í stærri 10x10 cm steinullarkubba.

Nauðsynlegt er að láta stóru steinullarkubbana liggja í bleyti í næringarblönduðu vatni. Ég lét þá liggja í klukkutíma til að tryggja að þeir væru búnir að drekka upp eins mikið vatn og mögulegt er. Út í vatnið setti ég jafna blöndu af Flora Seríunni (7ml af Gro, Micro og Bloom í 10 lítra af vatni). Ég sýrustillti vatnið í 5,8 pH.


10 tómatar saman í steinullarkubbamottu. Fyrir umpottun 19.05.2017

Þar sem steinullartapparnir sem ég var að nota eru samtengdir er nauðsynlegt að skera þá niður í minni einingar sem auðvelt er að tylla í götin á stærri kubbunum. Gott er að láta minni tappana þorna nokkuð vel áður en þeim er umpottað. Þá sækja ræturnar fyrr í rakann í stærri steinullarkubbinum.


Tómatarnir þegar þeim var umpottað. 19.05.2017

Gott er að tylla plöntunni á ská í steinullarkubbinum, þá fær tappinn sem mesta snertingu og ræturnar sækja fyrr niður.

Eins og sjá má á myndunum stækka tómatarnir mjög fljótt eftir að þeir eru komnir í steinullarkubbana og komnir með meira pláss. Það eru 4 dagar á milli myndanna.

Passa þarf að steinullarkubburinn þorni aldrei, erfitt getur reynst að bleyta upp í steinull eftir að hún þornar alveg. Því þarf að passa að vökva reglulega, það getur verið daglega eða á nokkurra daga fresti, allt eftir hitastigi og aðstæðum hvers og eins.

Til að pína tómatinn til að blómstra fyrr er gott að láta plönturnar vaxa í þessum steinullarkubbi þangað til að fyrsta blómið er sprungið út. Ef að plantan færi beint í vatnsræktarkerfið og hefði stöðugt aðgengi að vatni og næringu gæti plantan tekið sér lengri tíma í að byrja að blómstra. Það getur tekið 4-5 vikur að fá fyrsta blómið til að springa út eftir að plöntunni hefur verið pottað í stærri steinullarkubbinn.

03.06.2017

Tómtarnir komnir í leirkúlur til að tryggja vökvun. Betra væri að leyfa fyrsta blómi að springa út áður en þeir eru gróðursettir í leirkúlurnar og vökvunarkerfið. En stundum er betra að tryggja að þeir þorni ekki og því þarf að vega og meta hvað hentar hverjum og einum.

09.06.2017

Fyrsta blóm sprungið út.

20.06.2017

Tómatarnir stækka hratt í vatnsræktinni og eru mjög gróskumiklir.

07.07.2017

Mikið af tómötum komið á plönturnar. Greinarnar orðnar mjög þungar og því nauðsynlegt að binda þær upp eða styðja við þær.

14.07.2017

Tómatarnir halda áfram að hlaða á sig. Nú fer að styttast í fyrsta rauða tómatinn.

24.07.2017

 

Tómatarnir byrjaðir að roðna og bragðast rosalega vel. Stórir og þéttir í sér.