Fræ

Eigum úrval af fræjum  frá  Sluis Garden.

Allur frágangur á fræpakkningum er til fyrirmyndar, eykur það geymsluþol og gæði vörunnar.   

Hver er munurinn á ávöxtum og grænmeti?
Þessi orð eru notuð bæði í fræðilegu samhengi og í daglegu máli, og merkja þá ekki nákvæmlega hið sama. Í fræðimáli táknar orðið
ávextir (fruit) það sem vex úr egglegi frævunnar á plöntunni en aðrir ætir hlutar hennar kallast grænmeti (vegetables). Í daglegu tali er tilhneigingin sú að það sem menn neyta án matreiðslu er kallað ávöxtur en það sem þarf sérstaka matreiðslu er kallað grænmeti.

Íslenska orðið ávöxtur merkir samkvæmt orðsins hljóðan "eitthvað sem vex á einhverju" og er það þá heimfært á plöntur. Samsvarandi merking í grænmeti blasir við: grænn matur, jurtafæði. Orðin hafa þó greinilega bæði þróast frá þessum frummerkingum sínum.Oftast er litið svo á að ávöxtur samsvari erlendum orðum eins og fruit eða frugt en þau eru komin af latneska orðinu fructus sem merkir eiginlega "nautn, það að njóta".
Frummerking þessara orða er því allt önnur en í ávextinum og því ekki þess að vænta að hann hafi sömu aukamerkingar.

Enska orðið sem samsvarar grænmeti, vegetable, er komið úr miðaldalatínu og merkir eiginlega "það sem getur vaxið."

Hin fræðilega skilgreining virðist vera á þann veg að til ávaxta teljist allar þær jurtaafurðir sem vaxið hafa úr egglegi frævunnar á plöntu
og umlykja fræ hennar. Meðal ávaxta eru þá bananar, tómatar, hnetur, apríkósur og baunabelgir. Rætur, hnýði, fræ, lauf, blómknappar og aðrir ætir hlutar plöntunnar teljast grænmeti.

 Hversdagsleg notkun orðanna virðist þó heldur styðjast við meðferð matvælanna: Ef matreiðslu er beitt við afurðina og hún notuð sem hluti til dæmis af aðalrétti er hún heldur nefnd grænmeti. Hitt sem borðað er hrátt og oft sem sjálfstæður réttur nefnist þá ávextir. Dæmi um afurðir sem eru ávextir samkvæmt fræðilega skilningnum en kallast þó grænmeti dagsdaglega eru baunir, agúrkur, eggaldin, maís, paprika og tómatar.

tekið af vísindavef Háskóla Íslands